Áætlað er að á næstu 25 árum fjölgi íbúum höfuðborgarsvæðisins um hátt í 40% eða um 70.000, og verði þá orðin tæplega 300.000, og þegar við bætist vaxandi straumur ferðamanna er ljóst að það stefnir í stóraukna umferð. Haldist ferðavenjur óbreyttar mun þessi fjölgun valda erfiðleikum í samgöngum og auknum töfum í umferðinni, þrátt fyrir gríðarlegar fjárfestingar í nýjum umferðarmannvirkjum. Talið er að fram til 2040 muni ferðatími að óbreyttu lengjast um allt að 65%, vegalengdir aukast um 55% og umferðatafir um 80%. Ljóst er að umferðamál höfuðborgarkerfisins verði ekki leyst með annaðhvort öflugra gatnakerfi eða almenningssamgöngum. Því þarf samspil þessara tveggja lausna að koma til og þar munu afkastamiklar almenningssamgöngur gegna mikilvægu hlutverki fyrir íbúa svæðisins.
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa sett sér það markmið að auka hlutdeild almenningssamgangna úr 4% 2016 í að minnsta kosti 12% af heildarferðum innan höfuðborgarsvæðisins árið 2040. Gangi þetta eftir munu að minnsta kosti fjórfalt fleiri nota almenningssamgöngur árið 2040 en gerðu það 2016. Til að ná þessu markmiði þarf að þróa skilvirkt hágæða almenningssamgöngukerfi sem gerir fólki kleift að ferðast hratt og örugglega um höfuðborgarsvæðið, óháð umferðartöfum í vegakerfinu. Almenningssamgöngur þurfa að vera eftirsóknaverðari valkostur og hafa meiri flutningsgetu en við þekkjum í dag. Borgarlínan gerir hvort tveggja, hækkar þjónustustig og gerir almenningssamgöngur eftirsóknaverðari.