Samkvæmt samkomulagi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu á að gera áfangastaðaáætlun (e. Destination Management Plan) fyrir áfangastaðinn. Áfangastaðaáætlun er heilstætt ferli þar sem litið er til skipulags og samhæfingar í þróun og stýringu allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á viðkomandi svæði/áfangastað, þ.m.t. þarfir gesta, heimamanna, fyrirtækja og umhverfis. Áfangastaðaáætlun er sameiginleg stefnuyfirlýsing sem hefur það að markmiði að stýra uppbyggingu og þróun svæðis yfir ákveðinn tíma, skilgreina hlutverk hagsmunaaðila, tiltaka beinar aðgerðir sem hver og einn hagsmunaaðili ber ábyrgð á og hvaða bjargir/auðlindir þeir hyggjast nýta við þá vinnu.
Er þetta í fyrsta skipti sem áfangastaðaáætlun hefur verið gerð fyrir áfangastaðinn höfuðborgarsvæðið og er það undanfari þess að áfangastaðastofa verði stofnuð. Lykilköflum áfangastaðaáætlunar er hægt að skipta uppí fjóra þætti en þeir eru:
• Stöðugreining
• Framtíðarsýn
• Aðgerðaáætlun
• Markaðsáherslur
Áfangastaðaáætlun gefur því til kynna hvað skal gera til næstu þriggja ára fyrir áfangastaðinn.
Af hverju eiga fyrirtæki að vera aðilar að áfangastaðastofu:
Forsenda góðrar áfangastaðastofu er samstarf lykilhagaðila verkefnisins. Þá er átt við sveitarfélög, fyrirtækin og íbúa svæðisins. Ef ekki er samstarf milli þessara aðila er erfiðara að ná sameiginlegri sýn og árangri í uppbyggingu áfangastaðarins. En hvað er það sem fyrirtækin fá út úr þátttöku í samstarfi innan áfangastaðastofu? Það eru atriði eins og:
• Hlutdeild í að þróa áfangastaðinn til framtíðar öllum til ávinnings
• Slagkraftur í samstarfi um markaðssetningu fyrir áfangastaðinn
• Aðgangur að virku tengslaneti og samstarfi aðila á höfuðborgarsvæðinu
• Þátttaka í reglulegum stefnumótunar- og samstarfsfundum – meiri samlegð og samvinna
• Aðgengi og uppbygging tölfræði og annarra gagna
• Þátttaka í faghópum eins og við á s.s. um markaðsmál, þróun og samstarfið
• Sýnileiki í markaðsefni (t.d. auglýsingar á vef, samfélagsmiðlum ofl.)
• Sameiginlegur kynningarvettvangur þegar við á, t.d. Hittumst/Mannamót
• Þátttaka í blaðamannaferðum, FAM og almannatengslum
• Þátttaka í Reykjavík City Card – ef við á
• Aðstoð í tengslum við ferðamál og tengingar
• Afsláttur af viðburðum ef við á
Í grunninn geta fyrirtækin haft áhrif á alla þessa fjóra þætti sem eru: Stefnumótun & framtíðarsýn, þróun, kynningar og markaðsstarf og tengsl við aðra hagaðila. Auk þess eru fleiri smærri atriði sem áfangastaðastofa gerir eins og sýningarþátttaka, utanumhald við gerð skýrsla og rannsókna, námskeiðahald, uppbygging myndabanka og fleira.